Grein, birt í Morgunblaðinu 5. nóvember 2005
Meðal þeirra, sem efndu til framboðs til borgarstjórnar Reykjavíkur í maí 2002 var hópur sem valdi sér hið rismikla nafn Höfuðborgarsamtökin. Megin stefnumál þeirra var að Reykjavíkurflugvöllur fari úr Vatnsmýrinni, - og eigi síðar en árið 2010. Hugsjónir hópsins voru því af sama toga og svonefndra Samtaka um betri byggð, enda margir forsvarsmanna sameiginlegir báðum hópum. Niðurstaða kosninganna varð síðan sú, að þetta framboð hlaut samtals 397 atkvæði, samsvarandi aðeins 0,6% af gildum atkvæðum í Reykjavík. Ég er því eflaust meðal þeirra, sem töldu að þar með hefðu samtökin geispað golunni, þótt útförin hafi enn ekki verið formlega auglýst.
Það kom mér því spánskt fyrir sjónir að lesa í Morgunblaðinu 29. október yfirlýsingu Höfuðborgarsamtakana, sem fól í sér árás á nýleg hagsmunasamtök í Dalvíkurbyggð, sem hyggjast safna undirskriftum "til að árétta þá hagsmuni sem í húfi eru fyrir allt landsbyggðarfólk, þegar rætt er um flutning innanlandsflugs úr Vatnsmýrinni". Þetta markmið eitt og sér gæfi varla tilefni til athugasemda, en þegar Höfuðborgarsamtökin birta almenningi einnig kolrangar upplýsingar um stefnumörkun og tilhögun sjúkraflugs á Íslandi er ekki hægt að sitja hjá með hendur í skauti.
Í fyrsta lið yfirlýsingar þeirra segir: "Bráðveikir og stórslasaðir einstaklingar eru fluttir með þyrlum, ekki með vængjuðu flugi, slíkt væri óábyrgt og hættulegt." Þessi furðulega bábilja er reyndar sama eðlis og kom fram í viðtali Sigurðar G. Tómassonar á Talstöðinni við Dag B. Eggertsson borgarfulltrúa og lækni 29. september s.l. þar sem rætt var um Vatnsmýrina. Aðspurður um þýðingu Reykjavíkurflugvallar fyrir sjúkraflugið vitnaði Dagur til álits Stefáns E. Matthíassonar læknis þess efnis að nægjanlegt væri að gera aðeins ráð fyrir þyrluflugi, og að "framtíðarsýn Landspítala-háskólasjúkrahúss væri að allt sjúkraflug verði með þyrlum". Þegar borgarfulltrúinn vitnaði til þessa álits láðist honum að geta þess að umræddur Stefán var um árabil í stjórn Samtaka um betri byggð, og hefur ítrekað og hatrammlega barist gegn Reykjavíkurflugvelli.
Sem betur fer fyrir landsmenn alla eru það ekki þessir tveir læknar, og áhugamenn um pólitík, sem falið er að ráða tilhögun sjúkraflugs á Íslandi. Það er á verksviði heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis, Tryggingastofnunar ríkisins, landlæknis og sjúkraflutningaráðs. Það vill svo til að í sama Morgunblaði 29. október, er birt önnur frétt undir fyrirsögninni "Samið um sjúkraflug til næstu 5 ára", og byggð er á fréttatilkynningu heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins. Þar kemur fram að samið hafi verið við Mýflug að sinna sjúkraflugi frá Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum, en Landflug muni annast slíkt flug frá Vestmannaeyjum. Á Akureyrarflugvelli verði á vegum Mýflugs staðsett sérútbúin Beechcraft King Air tveggja-hreyfla skrúfuþota. Í fréttatilkynningunni sagði m.a.: "Samningarnir sem nú verða gerðir kosta um 139 milljónir króna og er þá miðað við 370 sjúkraflug að jafnaði, en á liðnu ári voru sjúkraflugin 381, auk sjúkraflugs sem þyrlur Landhelgisgæslunnar sinntu".
Þetta er í fullu samræmi við þá stefnumörkun að sjúkraflugi er fyrst og fremst sinnt með flugvélum, en þyrlur þá aðeins notaðar þegar ekki er hægt nota flugvélar. Fyrir því eru ýmsar ástæður, bæði flugtæknilegar og fjárhagslegar. Í fróðlegri grein eftir Jakob Ólafsson þyrluflugstjóra hjá Landhelgisgæslu, sem Morgunblaðið birti 10. október s.l. undir fyrirsögninni "Mannfórnir fyrir Reykjavíkurflugvöll", rekur hann þá miklu þýðingu sem flugvöllurinn í Vatnsmýrinni hefur fyrir allt sjúkra- og neyðarflug á Íslandi, og leggst eindregið gegn flutningi hans þaðan. Þar segir Jakob m.a.: "Nefnt hefur verið til að réttlæta flutninginn að þyrlur muni sjá um sjúkraflugið. Sjúkraflug með þyrlum er aðeins lítill hluti af því sjúkraflugi sem flogið er á Íslandi. Flugvélar fljúga að jafnaði helmingi hraðar en þyrlur og geta flogið mun hærra og geta þar af leiðandi farið stystu leið á milli staða. Fyrir utan að fljúga helmingi hægar þurfa þyrlurnar iðulega að fara með ströndum og þar af leiðandi lengri leið til að komast á slysstað og til baka."
Í skýrslu nefndar heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, sem tillögu gerði um stórfellda uppbyggingu Landspítala-háskólasjúkrahúss fyrir norðan flutta Hringbraut, og kynnt var í apríl 2004, segir í inngangi kafla um samgöngur við LSH: "Mikilvæg forsenda fyrir staðarvali við Hringbraut var að sýnt þótti að þar væri hægt að tryggja gott aðgengi ökutækja og sjúkraflugs". Það varð síðan sameiginleg ákvörðun Alþingis, ríkisstjórnar og borgarstjórnar Reykjavíkur að fallast á þessa tillögu um staðarval. Vanhugsaðar og óraunhæfar tillögur um lokun flugvallarins myndu því óhjákvæmilega leiða til þess að ákvörðunin um framtíðarstaðsetningu þessarar langstærstu og þýðingarmestu sjúkrastofnunar landsins kæmi til endurskoðunar.
Leifur Magnússon
verkfræðingur