Sjúkraflug til Reykjavíkur

Grein, birt í Morgunblaðinu 2. mars 2001.

Í viðtali við Brynjólf Mogensen sviðsstjóra slysa- og bráðaþjónustusviðs Landsspítala - háskólasjúkrahúss, sem birt var á baksíðu Morgunblaðsins s.l. laugardag, kemur fram fullyrðing, sem nauðsynlegt er að leiðrétta.

Í viðtalinu segir Brynjólfur réttilega: "Í lífsnauðsynlegum aðgerðum er þyrla notuð í langflestum tilvikum. Hún er fljótust á vettvang þegar alvarleg slys eða bráðaveikindi verða í nokkurri fjarlægð frá Reykjavík, í byggð eða óbyggð". Síðar í viðtalinu, undir millifyrirsögninni "Þyrlan áfram í Reykjavík", gefur Brynjólfur sér þá forsendu að "næsta öruggt að miðstöð þyrlunnar yrði áfram í Reykjavík" þótt flugvöllurinn fari.

Mér er ekki kunnugt um að þessi forsenda sé raunhæft fyrir hendi. Flugdeild Landhelgisgæslunnar, sem annast umræddan þyrlurekstur, rekur einnig venjulegar flugvélar til eftirlits með landhelginni, ísflugs, leitar- og björgunarflugs og til fleiri verkefna. Flugmenn deildarinnar sinna flestir hverjir bæði störfum á flugvélum og á þyrlum, og sama gildir að sjálfsögðu fyrir flugvirkjanna, sem annast viðhald og eftirlit þeirra. Flugskýli, viðhaldsaðstaða og stjórnstöð er sameiginleg.

Í bréfi, sem Hafsteinn Hafsteinsson forstjóri Landhelgisgæslunnar sendi Hollvinum Reykjavíkurflugvallar 16. nóv. s.l., segir m.a.: "Varðandi almannavarnir er rétt að hafa í huga, að í Reykjavík eru öflugustu sjúkrastofnanir landsins. Þurfi að flytja slasað fólk utan af landi vegna stórslysa, sem afleiðing af náttúruhamförum eða annarri vá, þá eru flutningar í lofti fljótvirkasta og oft öruggasta leiðin. Það yrði verulegt óhagræði af því að flytja innanlandsflugið til Keflavíkur. Setja þurfti upp nýja flutningslínu á milli Reykjavíkur og Keflavíkur, sem myndi lengja flutning slasaðra um minnst eina klukkustund."

Þá segir forstjórinn ennfremur í bréfi sínu: "Flugdeild Landhelgisgæslunnar er á Reykjavíkurflugvelli. Það hefur ávallt verið lögð rík áhersla á að viðbragðstími áhafna þyrlanna yrði sem stytstur. Hver mínúta getur ráðið úrslitum. Með flutningi á flugdeildinni til Keflavíkur myndi viðbragðstími lengjast til muna og kostnaður aukast."

Í bréfi Sigurðar Guðmundssonar landlæknis, dags. 30. nóv., tekur hann eindregið undir þá skoðun sjúkraflutningaráðs 28. nóv., "að Reykjavíkurflugvöllur gegni einstöku og afar mikilvægu hlutverki í sjúkraflutningum frá landsbyggðinni til Reykjavíkur og að ekki sé unnt að sjá fyrir aðra og jafngóða lausn í því efni. Vakin er athygli á nauðsyn þess að sérþjálfað starfslið sé nálægt flugvelli þegar rætt er um meðferð og flutning sjúkra og slasaðra."

Það má öllum ljóst vera, að verði Reykjavíkurflugvelli vísað úr höfuðborginni eftir árið 2016, er eini raunhæfi kosturinn að núverandi flugstarfsemi, þ.á m. áætlunar- og leiguflugið, og einnig öll starfsemi flugdeildar Landhelgisgæslunnar flytjist til Keflavíkurflugvallar.

Þá þarf einnig að hafa í huga, að það er aðeins hluti sjúklinga og slasaðra, sem er fluttur með þyrlum til höfuðborgarinnar. Samkvæmt ítarlegri skýrslu, "Úttekt á sjúkraflugi á Íslandi", sem Verk- og kerfisfræðistofan ehf. gerði vorið 1999 fyrir heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, er stærsti hlutinn fluttur í sjúkraflugi með 7-19 sæta flugvélum. Árið 1996 voru þannig að meðaltali fimm slík sjúkraflug í hverri viku til Reykjavíkur. Að auki eru einnig fjöldi sjúklinga og minna slasaðra fluttir með venjulegu áætlunarflugi til höfuðborgarinnar.

Nálægð flugvallarins í Vatnsmýri við þau fullkomnu hátæknisjúkrahús, sem byggð hafa verið upp í Reykjavík á undanförnum áratugum, er án nokkurs efa algjört lykilatriði í sjúkraflutningum, bæði varðandi mjög stuttan viðbragðstíma áhafna og annars björgunarliðs, og eins við komuna til höfuðborgarinnar.

Leifur Magnússon
verkfræðingur



Skrifaðu undir stuðning við flugvöllinn í Vatnsmýri