Lífsseig er sú hugmynd að reisa flugvöll á Hólmsheiði. Það er þó með öllu óraunhæfur kostur.
Hér má finna samantekt áður birtra upplýsinga um flugvallarstæði á Hólmsheiði.
Samkvæmt skýrslu Veðurstofunnar er nothæfisstuðull Hólmsheiðarvallar aðeins 92,8% sem þýðir að völlurinn væri lokaður 28 daga á ári. (Sjá skýrslur VÍ og Isavia)
Vegalengd frá Hólmsheiðarvelli að Landsspítalanum yrði 17 km á móti 1,6 km úr Vatnsmýri. Það er rúmlega 10x lengri leið. (Sjá Google Maps)
Sjúkravélar gætu ekki lent 28 daga á ári og yrðu þá að fara til Keflavíkur eða snúa til baka. Forgangsakstur sjúkrabíla hefði þar ekkert að segja.
„Niðurstaðan er sú að nýting flugvallarins yrði tæp 93 prósent. Það þýðir að flugvöllurinn yrði ónothæfur vegna veðurs í rúmlega 28 daga á ári. Reykjavíkurflugvöllur er að jafnaði ónæthæfur í einn til tvo daga á ári vegna veðurs. “ (Frétt RÚV)
Hólmsheiði er 130 metra yfir sjó. Þegar lágskýjað er yfir borginni er Hólmsheiði á kafi í skýjum.
Flugvélar í blindflugi verða að sjá brautina í að lágmarki 60m hæð yfir braut. Það er ógerlegt ef brautin er inni í skýjum.
Blindaðflug úr norðurátt væri ófært vegna landslags. Þriggja gráðu aðflugshalli sem hefðbundinn er í blindflugi liggur í gegnum Esju - Skálafells fjallgarðinn.
Lágur nýtingastuðull og takmarkað blindaðflug veldur því að flugfélög geta ekki nýtt Hólmsheiði sem varaflugvöll.
Hólmsheiði stæðist ekki kröfur um lágmarks nýtingarstuðul og því t.d. ekki gildur alþjóðlegur varaflugvöllur.
Völlurinn yrði uppi á heiði í því veðri sem þar tíðkast. Verulegur munur er á veðri við sjávarmál eða á heiðum. Völlurinn væri oftar lokaður vegna hálku og íss á brautum þar sem lægra meðalhitastig er á Hólmsheiði en í Vatnsmýri.
„Í skýrslunni kemur fram að veðurskilyrði séu almennt verri - meiri úrkoma, verra skyggni, meiri raki og hiti oftar undir frostmarki. Að auki yrði önnur brautin eingöngu sjónflugsbraut vegna nálægðar við Esjuna. Hægt er að fljúga blindflug á öllum flugbrautum Reykjavíkurflugvallar. Þá auki nálægð við fjöll líkur á umtalsverðri ókyrrð. Einnig er bent á að Hólmsheiði geti ekki orðið varaflugvöllur fyrir millilandaflug á sama hátt og Reykjavíkurflugvöllur.“ (Frétt RÚV)
Þegar vindar blása af fjöllum myndast svonefndir rotor-vindar í fjallahæð sem valda verulegum truflunum á flugi.
Fjallabylgjur geta valdið miklu niðurstreymi yfir flugbrautum sem eru hættulegir fyrir vélar í lágum hæðum.
Vindar yfir fjöll valda mikilli ókyrrð. Flugferðir yrðu þannig mun óþægilegri en nú.
Flugrekendur í innanlandsflugi fljúga ekki ef ókyrrð fer yfir ákveðin mörk sem valda farþegum miklum óþægindum.
Vindar og ókyrrð frá fjöllum valda því að völlurinn væri oftar lokaður en völlur fjarri fjöllum.
Vegna landslags eru ekki báðar brautir vallarins blindflugsbrautir sem hamlar verulega farþega og sjúkraflugi.
Aðflugsferlar að Hólmsheiðarvelli eru takmarkaðir. Blindflug úr norðri er ekki fært vegna landslags. Blindflug úr vestri færi yfir hverfi sem ekki búa við aðflugslínur í dag á borð við Hlíðar, Höfðahverfi og Grafarholt.
Skilgreint aðflugssvæði til austurs að Hólmsheiðarvelli hefst yfir Hlíðum. Þar væru vélar jafnframt í mestri hæð.
Lokahluti aðflugs til austurs lægi yfir Höfðann og Grafarholt. Þar væru vélar í sem lægstu hæð aðflugsins.
Þar sem stór hluti aðflugs að Vatnsmýri er yfir sjó er hávaðamengun með minnsta móti. Veruleg breyting verður á því fari flugumferð um Hólmsheiði.
„Þá er einnig bent á að rekstur flugvallarins á Hólmsheiði yrði kostnaðarsamari, til dæmis yrðu hálkuvarnir dýrari. Að lokum er bent á að færa þyrfti spennustöð, háspennulínu og heitavatnsæðar frá Nesjavöllum, sem þýddi milljarða króna í aukinn kostnað.“ (Frétt RÚV)
Í skýrslu ISAVIA kemur fram að uppreiknaður kostnaður við Hólmsheiðarvöll sé 18,8 milljarðar. (Sjá skýrsluna)
Að rífa Vatnsmýrarflugvöll og greiða fyrir eignarnámsbætur nemur milljörðum. Sá kostnaður er ekki meðtalinn í áðurnefndum kostnaðartölum.
Vegna hæðar er kaldara á Hólmsheiði og úrkoma meiri sem eykur þörf fyrir snjómokstur, afísingu og hálkuvarnir.
Færa þarf stórt tengivirki Landsnets, spennistöð og háspennulínur sem eru í nágrenni flugvallarstæðisins. Sá flutningur kostar milljarða. (Sjá frétt)
Heitt vatn frá Nesjavöllum fer um svæðið í stórri lögn. Hana þarf að færa með miklum tilkostnaði.
Farþegar þurfa að ferðast um lengri veg upp á Hólmsheiði en niður í Vatnsmýri auk þess sem leggja þyrfti vegi og annan aðbúnað upp á heiðina.