Grein, birt í Morgunblaðinu 2. apríl 2014.
Þann 25. okt. 2013 undirrituðu fulltrúar ríkis, Reykjavíkurborgar og Icelandair Group hf. "Samkomulag um innanlandsflug", sem fjallaði um skipun verkefnisstjórnar undir formennsku Rögnu Árnadóttur til "að fullkanna aðra kosti til rekstrar innanlandsflugs en framtíðarflugvöll í Vatnsmýri." Var henni ætlaður tími til ársloka 2014 til að skila niðurstöðum sínum. Að sjálfsögðu er ein niðurstaðan sú, að heppilegast sé að núverandi Reykjavíkurflugvöllur gegni óbreyttu hlutverki til framtíðar. Þess vegna er afar þýðingarmikið, að á þessum 14 mánaða umfjöllunartíma verði starfsemi hans ekki skert, t.d. með skipulagslegum aðgerðum. Einn aðili samkomulagsins, Reykjavíkurborg, telur sig þó bersýnilega óháðan slíku, sbr. eftirfarandi:
27. okt. 2013 efndu Reykjavíkurborg og Háskólinn í Reykjavík til málþings undir fundarstjórn Gísla Marteins Baldurssonar fv. borgarfulltrúa, og undir fyrirsögninni "Tækifærin í Vatnsmýrinni - málþing um virkjun hugvits og mannlífs". Boðið var upp á níu fyrirlesara, og enginn þeirra fjallaði um flugvöll eða flugrekstur.
23. des. 2013 auglýsti Reykjavíkurborg tillögu sína að nýju deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar, sem gerir ráð fyrir lokun NA/SV-flugbrautarinnar. Við það myndi nothæfisstuðull flugvallarins, skilgreindur samkvæmt Reglugerð um flugvelli nr. 464/2007, lækka úr 98,2% í 93,8%, samsvarandi 16 daga árlegri viðbótarlokun flugvallarins. Tveimur dögum áður hafði Alþingi samþykkt fjárlög ársins 2014, og hafði þá með afgerandi hætti hafnað að í þeim væri heimild fyrir sölu nokkurs hluta lands Reykjavíkurflugvallar.
21. jan. 2014 var í ráðhúsi Reykjavíkur undirritað "Samkomulag um þekkingarsvæði í Vatnsmýri", en að því stóðu Reykjavíkurborg, Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Landspítalinn og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
21. feb. 2014 var birt keppnislýsing Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands vegna "Hugmyndasamkeppni um skipulag Háskólasvæðisins". Á bls. 4 er birt mynd um "afmörkun samkeppnissvæðisins" þar sem allt svæði Fluggarða á Reykjavíkurflugvelli er einfaldlega flutt út fyrir flugvallargirðinguna. Ef að slíku kæmi, yrði væntanlega um að ræða stærstu eignauuptöku Íslandssögunnar, og greiðslu skaðabóta þá framvísað til útsvarsgreiðenda í Reykjavík. Í Fluggörðum eru nú 17 flugskýli, og þar hafa aðsetur sitt flestar flugvélar flugskóla og í einkaeign.
4. mars 2014 var efnt til kynningarfundar Reykjavíkurborgar og fasteignafélaganna Valsmenn hf. og Hlíðarfóts ehf. um hugmynd þeirra að uppbyggingu nýrrar byggðar á Hlíðarendasvæðinu, "sem muni gjörbreyta fjárhagi Vals".
12. mars 2014 skýrði Fréttablaðið frá því að Reykjavíkurborg hefði falið Capacent að uppfæra tiltekin hagræn en umdeild tölugildi úr svonefndri ParX skýrslu fyrir samráðsnefnd samgönguráðuneytis og Reykjavíkurborgar frá 2007.
13. mars 2014 lagði Helgi Hjörvar alþingismaður fram fyrirspurn á Alþingi til innanríkisráðherra "um mat ráðherra á hagrænni úttekt Capacent." Í þessu sambandi er við hæfi að minna á, að umræddur alþingismaður er guðfaðir furðuhugmynda Alþýðuflokks og síðar Samfylkingar um að ein flugbraut ætti vel að duga á Reykjavíkurflugvelli. Þeir sem vilja betur kynna sér þessar hugmyndir hans er bent á viðtal við Helga í Morgunblaðinu 23. nóv. 1999 undir fyrirsögninni "Flugvöllurinn verði ein flugbraut", og greinar hans í DV 26. og 27. nóv. 1999 undir fyrirsögnunum "Flugbraut í stað flugvallar?" og "200 valkostir um flugvöll". Flokkar Helga vilja gjarnan kenna sig við rósir, a.m.k. fyrir kosningar, og honum væri því vel ráðið að fræðast betur um svonefndar vindrósir flugvalla.
26. mars 2014 samþykkti meiri hluti Umhverfis- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar tillögu að nýju deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar, þar sem felld er niður núverandi NA/SV-flugbraut, og bókuðu þá eftirfarandi málinu til stuðnings: "Nýtt deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar hefur engin áhrif á rekstur flugvallarins. Það er gert sem hluti af samkomulagi Reykjavíkurborgar, Innanríkisráðuneytis og Icelandair."
Hér er um að ræða meiri háttar og grófar falsanir staðreynda, sem annað hvort benda til þess að umræddir borgarfulltrúar vita ekki eða skilja ekki staðreyndir málsins, eða eru vísvitandi að hafna þeim. Eins og áður hefur verið minnst á fylgir lokun umræddrar flugbrautar, að Reykjavíkurflugvöllur lokast til viðbótar fyrir flugumferð í 16 daga á ári, sem hefur afgerandi áhrif á áætlunarflugið, en þó fyrst og fremst á sjúkraflugið til Reykjavíkur, þar sem nú er eina hátækni- og háskólasjúkrahús Íslands. Í öðru lagi þarf að minna á, að umrætt samkomulag ríkis, Reykjavíkurborgar og Icelandair Group fjallaði aðeins um eitt mál, skipun verkefnisstjórnar, sem hefur frest til ársloka 2014 til að skila niðurstöðum sínum um hugsanlega flugvallarkosti fyrir Reykjavík. Þar var ekkert fjallað um lokun flugbrautar eða deiliskipulag.
Margir í fótgönguliðinu til varnar flugvellinum telja sig sjá tiltekin fingraför á þessum samræmdu aðgerðum Reykjavíkurborgar, - og sennilega Degi ljósar hver þau á.
Leifur Magnússon
verkfræðingur