Um skipulagsvaldið

Grein, birt í Morgunblaðinu 5. september 2013.

Sveitarstjórnarmönnum, ekki síst núverandi borgarfulltrúum Reykjavíkur, hefur að undanförnu orðið tíðrætt um "vald" sitt til að ákveða skipulag sveitarfélags. Síðustu dagana hefur þessi valdtúlkun færst á hærra þrep því nú er sagt að um sé að ræða "stjórnarskrárvarið vald sveitarfélags til að ákveða skipulag sitt." Ég hef til þessa takmarkað skrif mín í dagblöð og tímarit við tæknileg málefni, sem ég tel mig hafa þekkingu á, einkum tengd flugmálum og flugrekstri. Ég er því eflaust að hætta mér út á hálan ís við umfjöllun á ákvæðum stjórnarskrár og laga. Hafa ber þó í huga, að stjórnarskrá, lög og reglugerðir, sem þegnum landsins er ætlað að fylgja, eiga að vera þannig rituð, að almenningur skilji textann án þess að þurfa að hafa lögfræðing sér við hlið.

Stjórnarskrá lýðveldisins er ekki stórt skjal. Við útprentun af vefsíðu Alþingis kemst hún fyrir á rúmlega fjórum A4-blöðum. Ég hef vandlega leitað í henni að ofangreindri valdheimild, en finn ekki. Hugsanlega eru menn með í huga eftirfarandi ákvæði 78. greinar: "Sveitarfélög skulu sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða."

Um skipulag landssvæða á Íslandi gilda Skipulagslög nr. 123/2010 með síðari breytingum. Samkvæmt þeim er sveitarfélögum skylt að láta gera ýmiss konar skipulag svæða sinna, þar á meðal aðalskipulag. Meðal markmiða laganna, sem skráð eru í 1. grein þeirra, er "að tryggja að samráð sé haft við almenning við gerð skipulagsáætlana þannig að honum sé gefið tækifæri til að hafa áhrif á ákvörðun stjórnvalda við gerð slíkra áætlana."

Í 3. grein segir "Ráðherra fer með yfirstjórn skipulagsmála samkvæmt lögum þessum. Ráðherra til aðstoðar er Skipulagsstofnun sbr. 4. gr." (Í inngangi laganna er staðfesting þess efnis, að þegar í lögunum sé getið um ráðherra sé átt við umhverfis- og auðlindaráðherra). Í þessari sömu 3. grein segir ennfremur: "Sveitarstjórnir annast gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlana. Þær fjalla um leyfisumsóknir og veita framkvæmdaleyfi og hafa eftirlit með framkvæmd skipulagsáætlana og framkvæmdaleyfisskyldum framkvæmdum." Ekki er hér neitt að finna um meint vald sveitarstjórna.

Í 29. grein segir m.a.: "Sveitarstjórn ber ábyrgð á að gert sé aðalskipulag fyrir sveitarfélagið. Skipulagsnefnd sveitarfélags annast í umboði sveitarstjórnar vinnslu, kynningu og afgreiðslu aðalskipulags. Sveitarstjórn samþykkir aðalskipulag og sendir það Skipulagsstofnun til staðfestingar". Enn bólar ekkert á valdi sveitarfélaganna!

Í 32. grein er fjallað um afgreiðslu og gildistöku aðalskipulags, og þar segir m.a.: "Skipulagsstofnun skal innan fjögurra vikna frá .því að tillaga að aðalskipulagi barst henni staðfesta aðalskipulagstillöguna og auglýsa hana í B-deild Stjórnartíðinda. Aðalskipulagið tekur gildi, þegar það hefur verið samþykkt af sveitarstjórn, hlotið staðfestingu Skipulagsstofnunar og verið birt í B-deild Stjórnartíðinda.Telji Skipulagsstofnun að synja beri aðalskipulagi staðfestingar eða fresta staðfestingu þess að öllu leyti eða hluta skal hún senda um það tillögu til ráðherra innan fjögurra vikna frá því að henni barst tillaga að aðalskipulagi."

Í lok greinarinnar segir: "Ráðherra synjar, frestar eða staðfestir aðalskipulag skv. 4. mgr." Öllum ætti því að vera vel ljóst, að umrætt skipulagsvald er í höndum umhverfis- og auðlindaráðherra og Skipulagsstofnunar, sem er sérhæfð ríkisstofnun ráðherranum til aðstoðar á þessu sviði.

Leifur Magnússon
verkfræðingur



Skrifaðu undir stuðning við flugvöllinn í Vatnsmýri