Grein, birt í Morgunblaðinu 5. desember 2012
Á vefsíðu velferðarráðuneytis er birt eftirfarandi skilgreining: "Landspítali er aðalsjúkrahús landsins og háskólasjúkrahús. Hann veitir sérhæfða sjúkrahúsþjónustu meðal annars á göngu- og dagdeildum fyrir alla landsmenn, og almenna sjúkraþjónustu fyrir íbúa heilbrigðisumdæmis höfuðborgarsvæðisins."
Undirbúningur að stórfelldri uppbyggingu spítalans, sem m.a. felur í sér sameiningu við Borgarspítala, hefur staðið í rúman áratug, og þar kom snemma til álita val á staðsetningu. Í skýrslu nefndar heilbrigðisráðherra um uppbyggingu Landspítala frá apríl 2004 var komist að þeirri niðurstöðu að hann skuli vera við Hringbraut. Ríkisstjórn, borgarstjórn og Háskóli Íslands eru öll því samþykk. Á bls. 22 í skýrslu nefndarinnar segir: "Mikilvæg forsenda fyrir staðarvali við Hringbraut var að sýnt þótti að þar væri hægt að tryggja gott aðgengi ökutækja og sjúkraflugs".
Svo virðist, að sumir borgarfulltrúar haldi að sjúkraflutningum með flugi sé að mestu sinnt með þyrlum. Því fer víðs fjarri. Ítrekaðar kannanir staðfesta að um 4% farþega í áætlunarflugi til höfuðborgarinnar eru á ferð vegna læknisþjónustu, sem þeir þurfi að sækja þangað. Þetta eru því um 92% sjúkraflutninga með flugi. Aðrir, sem þarf að flytja fljótt til spítala, eða hafa slasast, eru helst fluttir með sérbúnum og hraðfleygum King-Air skrúfuþotum flugfélagsins Mýflugs á Akureyri, sem sinnir slíkum flutningum samkvæmt samningi við velferðarrráðuneytið. Forsenda þess er þó að þeir hafi verið nálægt nothæfum flugvelli. Þetta er um 6% sjúkraflutninganna. Þyrlur Landhelgisgæslu Íslands flytja síðan aðra sjúka eða slasaða, sem eru fjarri flugvelli, eða af hafsvæðum umhverfis Ísland, og er um 2% árlegra sjúkraflutninga með flugi. Hafa ber í huga að frumverkefni þyrlanna er leit og björgun.
Forsvarsmenn heilbrigðisstofnana hafa margsinnis tjáð sig um þýðingu Reykjavíkurflugvallar fyrir sjúkraflutninga. Þann 28. nóv. 2000 sendi þáverandi sjúkraflutningaráð landlækni bréf undir fyrirsögninni "Öryggissjónarmið og framtíð Reykjavíkurflugvallar". Þar sagði m.a.: "Það er álit sjúkraflutningaráðs að Reykjavíkurflugvöllur gegni einstöku og afar mikilvægu hlutverki í sjúkraflutningum frá landsbyggðinni til Reykjavíkur, og að ekki sé unnt að sjá fyrir sér neina aðra og jafngóða lausn í þessu efni." Í bréfi þáverandi landlæknis 30. nóv. 2000 tók hann eindregið undir þetta álit sjúkraflutningaráðs.
Fjöldi lækna og annarra starfsmanna heilbrigðisþjónustu hafa ítrekað tjáð sig um þessi mál, t.d. eftirfarandi: "Stjórnarfundur Landssambands heilbrigðisstofnana, haldinn á Akureyri 18. nóv. 2011, vekur athygli á mikilvægi nálægðar Reykjavíkurflugvallar við Landspítala vegna sjúkraflugs og bráðaþjónustu við landsbyggðina. Gæta verður þess, þegar nýr Landspítali er byggður, að þessi nánu tengsl verði ekki rofin. Hverfi Reykjavíkurflugvöllur veldur það mikilli afturför í bráðaþjónustu við þá landsmenn, sem þurfa að komast til Landspítala með sjúkraflugi."
Á Alþingi er nú til umfjöllunar frumvarp til laga "um miðstöð innanlandsflugs", sem 12 þingmenn úr þremur flokkum lögðu fram. Meðal þeirra sem í umsögnum sínum til Alþingis hafa eindregið stutt frumvarpið eru Bændasamtök Íslands, Samtök atvinnulífsins, Samtök ferðaþjónustunnar og átta sveitarfélög. Forsvarsmenn tveggja stærstu heilbrigðisstofnana landsins, Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri hafa einnig lýst fullum stuðningi sínum.
Í umsögn Björns Zoëga, forstjóra Landspítala, dags. 15. nóv. 2012, segir m.a.: "Hluti sjúklinganna sem koma með sjúkraflugi utan af landi þarf að komast sem fyrst á Landspítala, sjúkraflutningar eru þá í kapp við tímann. Mikilvægt er að stytta heildarflutningstímann þ.e. frá ákvörðun um flutning sjúklings með sjúkraflugi til komu hans á Landspítala. Akstur frá flugvelli á Landspítala er einn þáttur í flutningstímanum og því mikilvægt að hann taki eins stuttan tíma og kostur er."
Í umsögn Hildigunnar Svavarsdóttur og Sigurðar Einars Sigurðssona, tveggja framkvæmdastjóra við Sjúkrahúsið á Akureyri, dags. 19. nóv. 2012, segir m.a.: "Hlutverk flugvallarins, sem staðsettur er í Reykjavík, hefur mikla þýðingu fyrir öryggi landsmanna og aðgengi þeirra að heilbrigðisþjónustu / bráðaþjónustu á Landspítala háskólasjúkrahúsi. Vegalengd og tími flutnings frá flugvelli á suðvesturhorninu getur skipt sköpum varðandi lífslíkur sjúklinga sem koma með sjúkraflugi og þurfa tafarlausa þjónustu heilbrigðisstarfsmanna á LSH. Því er staðsetning flugvallarins í Reykjavík, í nálægð við LSH, mikill öryggisþáttur allra starfsmanna".
Ég tek alfarið undir þessar umsagnir, og skora jafnframt á alþingismenn að samþykkja sem fyrst umrætt frumvarp til laga.
Leifur Magnússon
verkfræðingur