Um notkunarstuðul flugvalla

Grein, birt í Morgunblaðinu 6. desember 2013.

Á bls. 18 í skýrslu samráðsnefndar samgönguráðuneytisins og Reykjavíkurborgar "Reykjavíkurflugvöllur - úttekt á framtíðarstaðsetningu", sem skilað var í apríl 2007, er að finna eftirfarandi fullyrðingu: "Nýting Reykjavíkurflugvallar er um 99%, þ.e. veðurfarsskilyrði hamla flugi í aðeins 1% tilvika. Með lokun brautar 06/24 er reiknað með að nýtingarhlutfallið lækki í 98%." Sá litli minnihluti landsmanna, sem af miklum móði vilja loka umræddri NA/SV-flugbraut á Reykjavíkurflugvelli, og síðan sem fyrst flugvellinum öllum, vitna oft til þessa texta máli sínu til stuðnings.

Aðrir, sem telja sig þekkja eitthvað til ýmissa flugtæknilegra þátta, hafa átt býsna erfitt með að átta sig á þeim forsendum, sem þessi fullyrðing gæti hugsanlega byggt á. Við nánari lestur skýrslunnar koma þær hins vegar í ljós, því á bls. 31 segir að um sé að ræða "reikningslega nýtingu" miðað við allt að 30 hnúta hliðarvind!

Tæknireglur Alþjóðaflugmálastofnunarinnar um flugvelli, sem birtar eru í svonefndum "ICAO Annex 14", tilgreina aðeins á einum stað notkunarstuðul (e: Usability factor) flugvallar, og er hann alfarið tilgreindur með tilliti til leyfilegs hliðarvinds. Svo vel vill til, að þessar alþjóðareglur eru hér á landi einnig birtar sem hluti af "Reglugerð um flugvelli" nr. 464/2007, sem þáverandi samgönguráðherra undirritaði 21. mars 2007, og öðluðust gildi þegar í stað. Í VI. hluta reglugerðarinnar, "Kröfur til flugvalla", segir í grein 3.1.1: "Fjöldi og stefna flugbrauta á flugvelli ætti að vera slíkur að notkunarstuðull flugvallarins sé ekki minni en 95% fyrir flugvélarnar sem flugvöllurinn þjónar." Í grein 3.1.3 segir síðan, að við framkvæmd greinar 3.1.1 ætti að gera ráð fyrir að lendingum og flugtökum flugvéla sé undir venjulegum kringumstæðum hætt, þegar hliðarvindsstuðull er meiri en 20 hnútar hvað varðar flugvélar með viðmiðunarflugtaksvegalengd 1500 m eða meira, 13 hnútar fyrir þær sem þurfa 1200 til 1500 m, og 10 hnútar fyrir lengd undir 1200 m. Þær áætlunarflugvélar, sem Reykjavíkurflugvöllur þjónar nú, falla í ofangreindan miðflokk, þ.e. að miða ber við 13 hnúta hámarkshliðarvind við útreikning á notkunarstuðli flugvallarins. Fyrir liggja mjög ítarlegar og vandaðar langtíma veðurfarsskráningar á Reykjavíkurflugvelli. Að beiðni Orkuveitu Reykjavíkur gerðu Guðmundur R. Jónsson og Páll Valdimarsson, prófessorar í verkfræði við Háskóla Íslands, vandaða skýrslu undir heitinu "Um nýtingarhlutfall brauta á Reykjavíkurflugvelli" (feb. 2000). Þar kom fram, að notkunarstuðull Reykjavíkurflugvallar með núverandi þremur flugbrautum, og miðað við 13 hnúta hliðarvindsmörkin, er 98,2%. Það þýðir, að flugvöllurinn er að meðaltali lokaður 6,6 daga á ári vegna of mikils hliðarvinds.

Sé hins vegar NA/SV-flugbrautin ekki fyrir hendi, þ.e. að flugvöllurinn hafi aðeins tiltækar vær flugbrautir, lækkar nýtingarhlutfallið í 93,8%, samsvarandi því að hann væri að meðaltali lokaður 22,6 daga á ári vegna of mikils hliðarvinds, - og væri þá jafnframt kominn niður fyrir það 95% lágmark, sem greinilega er tilgreint í alþjóðareglunum og íslensku reglugerðinni. Lokun NA/SV-flugbrautarinnar þýðir því 16 daga árlega viðbótarlokun flugvallarins, og sem hefur fyrst og fremst afgerandi áhrif á rekstur áætlunar- og sjúkraflugs..

Morgunblaðið birti 12. okt. s.l. athyglisverða grein eftir Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra undir fyrirsögninni "Öruggt samfélag er gott samfélag". Þar segir ráðherra m.a.: "Í mínum huga sameinast öll þau verkefni, sem unnin eru á vettvangi innanríkisráðuneytisins, í tveimur orðum, öryggi almennings". Þetta er laukrétt hjá hinum nýja ráðherra, og jafnframt fyrirtaks greining á verkefnum þessa stóra ráðuneytis, sem m.a. fer með málefni löggæslu, landhelgisgæslu, leitar og björgunar, almannavarna, fjarskipta og öryggismála allra samgangna á landi, á sjó og í lofti.

Síðar í sama mánuði var ráðherranum aftur öryggið efst í huga, þegar greinin "Öryggi í innanlandsflugi" var birt í Morgunblaðinu í kjölfar undirritunar tveggja skjala varðandi Reykjavíkurflugvöll. Síðara skjalið, sem aðeins var undirritað af innanríkisráðherra og Jóni Gnarr borgarstjóra, felur því miður í sér mjög dapurlegt stílbrot við þann háa sess, sem ráðherra vill að öryggi fái í sínum verkum. Í því skjali er boðuð lokun NA/SV-brautar Reykjavíkurflugvallar í tengslum við fyrirhugaða endurskoðun á deiliskipulagi fyrir flugvallarsvæðið. Í þessu sambandi mætti þó einnig hafa í huga, að forsætisráðherra hefur ítrekað sagt, bæði fyrir og eftir undirritun skjalanna, að áfram beri að starfrækja Reykjavíkurflugvöll í Vatnsmýri, og með þremur flugbrautum.

Aðgerð, sem felur í sér 16 daga árlega viðbótarlokun Reykjavíkurflugvallar, m.a. fyrir sjúkraflugi, getur varla flokkast undir "öryggi almennings".

Leifur Magnússon
verkfræðingur



Skrifaðu undir stuðning við flugvöllinn í Vatnsmýri