Kynning flugvallarkosta

Grein, birt í Morgunblaðinu 14. mars 2001.

Að loknum löngum aðdraganda ákvað borgarráð Reykjavíkur loksins 13. feb. s.l. um hvað íbúar höfuðborgarinnar fái að greiða atkvæði laugardaginn 17. mars: "Vilt þú að flugvöllur verði í Vatnsmýri eftir 2016?", eða "Vilt þú að flugvöllur fari úr Vatnsmýri eftir 2016?" Fimm dögum síðar opinberaði borgarstjóri sitt eigið val, - flugvöllurinn fari. En hvert ætti hann þá að fara?

Fyrir nokkrum vikum var borið í hvert hús höfuðborgarinnar 20 síðna blað frá þróunarsviði Ráðhúss Reykjavíkurborgar undir fyrirsögninni "Framtíðarborgin Reykjavík". Á fjórum síðum í miðju blaðsins er fjallað um flugvallarmálið, og borgarbúum þar m.a. bent á að ef þeir kjósi flugvöllinn burt úr borginni séu þrír kostir fyrir hendi, Löngusker, Hvassahraun eða Keflavík.

Lönguskerjum hafnað

Ýmsar hugmyndir hafa áður verið kynntar um gerð nýs flugvallar á sjávarfyllingum í Skerjafirði, þ.á m. á Lönguskerjum. Þótt enn séu í kynningargögnum Reykjavíkurborgar tíundaðir meintir kostir og gallar þeirra var þessi hugmynd þó í reynd formlega afgreidd út af borðinu í "Greinargerð um flugvallarhugmyndir á höfuðborgarsvæðinu", sem borgarverkfræðingur gerði fyrir "Samvinnunefnd um svæðisskipulag á höfuðborgarsvæðinu", og kynnt var á fundi borgarráðs 16. jan. s.l.

Þar segir á bls.14: "Ekki verða með lauslegri athugun fundin rök sem réttlæta frekari skoðun á flugvallargerð í Skerjafirði heldur verði leitað annarra lausna varðandi flutning Reykjavíkurflugvallar ef til þess kæmi. Sérstök umsögn Borgarskipulags Reykjavíkur var einnig mjög neikvæð varðandi staðsetningu flugvallar í Skerjafirði."

Til viðbótar hefur borgarstjóri nú fyrir nokkru lýst þeirri skoðun sinni, að flugvöllur úti í Skerjafirði kæmi ekki til álita með hliðsjón af ýmsum umhverfisþáttum.

Þar með hafa bæði embættismenn og ráðandi stjórnmálamenn Reykjavíkurborgar hafnað flugvelli úti í Skerjafirði. Sama sinnis eru samgönguyfirvöld og flugrekendur. Hvers vegna er þá þessi kostur enn kynntur í dreifigögnum Reykjavíkurborgar og á spjöldum og myndböndum hennar á flugvallasýningunni í Ráðhúsinu í liðinni viku?

Hvassahrauni einnig hafnað

Í sömu kynningargögnum Reykjavíkurborgar er einnig bent á "nýjan völl í Hvassahrauni sunnan Hafnarfjarðar" sem hugsanlegt flugvallarstæði, og þar taldir upp sjö meintir kostir hans, en aðeins þrír ókostir. Einn ókostanna er orðaður eftirfarandi: "Frekari mælinga veðurfars á svæðinu er þörf". Af hálfu ráðgjafa borgarinnar eru þetta væntanlega dulkóðaðar upplýsingar, sem á mannamáli þýða: "Flugvöllur á þessum stað kemur ekki til álita fyrir innanlandsflugið"!

Þessi staðreynd hefur að sjálfsögðu legið ljós fyrir í marga áratugi, og er löngu staðfest bæði af íslenskum flugmönnum og öðrum sérfróðum aðiljum, sem að málinu hafa komið. Í ofangreindri greinargerð borgarverkfræðings, sem kynnt var borgarráði 16. jan., segir t.d. á bls. 17 um þennan kost, - sem reyndar er utan höfuðborgarsvæðisins: "Flugmálastjórn telur ekki fýsilegt að flytja innanlandsflugvöll á völl sunnan Hafnarfjarðar vegna óhagstæðs veðurfars og nálægðar við Keflavíkurflugvöll". Í yfirlýsingum samgönguráðherra, nú síðast í grein hans í Morgunblaðinu s.l. sunnudag, hefur hann ítrekað staðfest að flugvöllur í Hvassahrauni sé ekki talinn raunhæfur kostur.

Flugleiðir, og þau eldri flugfélög sem stofnuðu félagið, eiga að baki 63 ára samfellda reynslu af íslenskum flugrekstri. Maður skyldi því ætla, að til þeirra yrði leitað um álit varðandi gerð hugsanlegs nýs flugvallar sem miðstöðvar innanlandsflugsins í stað núverandi Reykjavíkurflugvallar. Ég hef það skriflega staðfest frá bæði forstjóra Flugleiða og framkvæmdastjóra Flugfélags Íslands, að þeir aðiljar, sem undanfarið ár hafa verið að huga að og viðra opinberlega hugmyndir um nýja flugvelli á sjávarfyllingum úti í Skerjafirði og á hrauninu sunnan Hafnarfjarðar, hafi aldrei haft samband við þá eða aðra yfirmenn eða sérfræðinga flugfélaganna um slíka kosti. Það liggur reyndar löngu ljóst fyrir, að bæði flugfélögin hafna alfarið hugmyndum um þessa flugvelli sem ónothæfum fyrir grunnþarfir reglubundins áætlunarflugs.

Miðað við framangreint skiptir því engu máli hvort forsvarsmenn Reykjavíkurborgar telji t.d. Hvassahraun bókhaldslega áhugaverðan kost. Sömu aðiljar hafa ítrekað staðfest að gerð og rekstur íslenskra flugvalla sé áfram alfarið á vegum ríkisins, og að Reykjavíkurborg hafi ekki í huga að byggja neinn flugvöll. Þá hafnaði bæjarstjóri Hafnarfjarðar því 17. jan. s.l. að til greina komi að gera flugvöll á þessum stað. Hvers vegna er þá hugsanlegur nýr flugvöllur í Hvassahrauni enn kynntur sem kostur í kynningargögnum borgarinnar?

Keflavíkurflugvöllur

Frá upphafi umræðna um þetta mál hafa samgönguyfirvöld og flugrekendur margbent á, að verði flugvellinum vísað úr höfuðborginni, muni umrædd flugstarfsemi þurfa að flytjast til Keflavíkurflugvallar. Ýmsir þingmenn og sveitarstjórnarfulltrúar á Suðurnesjum hafa reyndar ítrekað hvatt til slíkrar lausnar, og ekki að ástæðulausu, því þeir átta sig vel á því að þangað myndi þá flytjast fjöldi mjög verðmætra starfa frá höfuðborginni.

Þeir kjósendur höfuðborgarinnar, sem n.k. laugardag hyggjast greiða atkvæði með því að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýrinni eftir 2016, verða því að gera sér vel ljóst að þeir eru þá jafnframt að greiða því atkvæði að öll umrædd flug- og ferðaþjónusta flytjist frá Reykjavík til Keflavíkur.

Lokaorð

Ég hvet hins vegar íbúa höfuðborgarinnar til að láta skynsemi sína ráða í þessu máli og mæta vel á kjörstað á laugardaginn. Þar er rétt að hafa í huga þá miklu þýðingu sem Reykjavíkurflugvöllur hefur almennt á sviði öryggismála landsins og borgarinnar í víðtækasta skilningi, og jafnframt grunnhlutverk hans í áframhaldandi þróun íslenskrar flug- og ferðaþjónustu. Greiðum atkvæði með því að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni eftir árið 2016.

Leifur Magnússon
verkfræðingur



Skrifaðu undir stuðning við flugvöllinn í Vatnsmýri