Hliðarvindur í borgarstjórn

Grein, birt í Morgunblaðinu 14. september 2012

Undirritaður hefur starfað að íslenskum flugmálum undanfarna rúma hálfa öld, þar af 18 ár sem framkvæmdastjóri hjá Flugmálastjórn Íslands og 22 ár sem framkvæmdastjóri hjá Flugleiðum. Í lok síðara tímabilsins er mér m.a. minnisstætt símtal frá þáverandi borgarfulltrúa R-lista, en nú alþingismanni Samfylkingar, sem spurði af hverju þyrfti endilega þrjár flugbrautir í Reykjavík, þegar ein virtist duga ágætlega á Akureyri!

Ég reyndi að útskýra að ástæða þessa væri svonefnd "vindrós" Reykjavíkurflugvallar, en vindrós er grafísk útfærsla á langtíma mælingum á vindhraða úr hverri stefnu, og gildir fyrir tiltekinn stað. Alþjóðlegar reglur um hönnun og gerð flugvallar fyrir atvinnuflug gera lágmarkskröfu um 95% nýtingu hans með hliðsjón af vindi, og miðað við tilgreind hámörk þess hliðarvinds, sem flugvélar þola við örugg flugtök og lendingar.

Fyrir liggja mjög ítarlegar upplýsingar um vindmælingar á Reykjavíkurflugvelli. Vindrós hans staðfestir, að til þess að umræddri 95% lágmarksnýtingu verði náð, þurfa þar í reynd að vera þrjár flugbrautir. Í þessu samhengi þarf að hafa í huga, að leyfilegur hliðarvindur fyrir örugga lendingu eða flugtak er háður mörgum þáttum, m.a. mældum hemlunarskilyrðum á flugbrautum, og er því oft mun lægri að vetrarlagi, þegar úrkoma eða hálka á flugbrautum valda lakari hemlun. Einnig þarf að taka tillit til þess að eðlilegt er að gera hærri kröfur um nýtingarhlutfall þegar um er að ræða flugvöll, sem er miðpúnktur allra áætlunarleiða innanlands. Það, að Akureyri kemst þokkalega af með aðeins eina flugbraut, ræðst auðvitað líka af vindrós þess staðar, en hún mótast að miklu leyti af sjálfum Eyjafirðinum. Sama gildir um aðra hérlenda flugvelli í dölum eða fjörðum.

Núgildandi aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024 er frá yfirráðatíma R-listans í borginni, sem taldi að gera ætti nýjan flugvöll í eða við borgina. Þar var gert ráð fyrir að Reykjavíkurflugvelli verði lokað í tveimur áföngum. Árið 2016 verði norður/suður flugbrautinni lokað, og síðan flugvellinum öllum árið 2024. Af hálfu þáverandi forsvarsmanna flugsamgangna hafði ítrekað verið bent á, bæði munnlega og skriflega, að Reykjavíkurflugvöllur með eina flugbraut væri gjörsamlega ónothæfur fyrir reglubundið áætlunarflug. Það myndi því sjálfkrafa leggjast af um leið og norður/suður flugbrautinni yrði lokað árið 2016. Aðalskipulagið var síðan staðfest af þáverandi umhverfisráðherra með þeim fyrirvara að "uppbygging í Vatnsmýri og tímasetning hennar er háð flutningi á flugstarfsemi af svæðinu", og gildir sá fyrirvari að sjálfsögðu enn.

Samfylkingin, og áður Alþýðuflokkurinn, dreifðu gjarnan rósum í aðdraganda kosninga. Þar innanbúðar virðist hins vegar enn vera takmarkaður skilningur á þýðingu vindrósar, og slíkt skilningsleysi hefur bersýnilega gengið í erfðir til núverandi borgarfulltrúa flokksins. Í viðtali við Hjálmar Sveinsson varaformann skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, sem birt var í Morgunblaðinu 8. sept., staðfestir hann að "ekki standi annað til en að tímasetningar um lokun norður/suður flugbrautar Reykjavíkurflugvallar árið 2016 standi". Einnig er þar að finna eftirfarandi heimspekikorn: "Ég minni á að flugvélar sem lenda í Reykjavík eru að lenda við erfiðar aðstæður t.d. á Ísafirði og Grænlandi. Því gætu þær eins lent áfram á austur/vesturbrautinni þar sem aðstæður eru mun betri en á áðurnefndum stöðum", segir Hjálmar og bætir við að þróunin sé sú að innanlandsflug fari sífellt minnkandi. Að lokum er haft eftir varaformanninum "að hann líti svo á að framtíð Reykjavíkurflugvallar sé í höndum borgarinnar".

Varðandi meinta minnkun innanlandsflugs, mætti einfaldlega benda Hjálmari á vefsíðu Isavia ohf., en þar kemur fram að árið 2011 hafi verið skráðir samtals 781.357 innanlandsfarþegar um íslenska áætlunarflugvelli, og hafi þeim fjölgað um 5,8% frá fyrra ári. Samtals 384.232 voru þá skráðir á Reykjavíkurflugvelli, og hafði fjölgað um 6,8%.

Að lokum skal það rækilega áréttað að framtíð Reykjavíkurflugvallar er ekki aðeins "í höndum borgarinnar", þ.e. 15 kjörinna borgarfulltrúa. Að því máli koma ekki síður hlutaðeigandi ráðuneyti, fyrst og fremst innanríkisráðuneyti og velferðarráðuneyti, Alþingi, og að sjálfsögðu öll þjóðin, - a.m.k. svo lengi sem Reykjavík er falið að gegna hlutverki höfuðborgar Íslands. Í því hlutverki felst m.a. eindregin kvöð um nútímalegar, hagkvæmar og öruggar samgöngur. Af fréttum liðinnar viku að dæma virðist núverandi pólitísk forysta telja að þar skuli nú helst tefla fram niðurgreiddum strætisvagnaferðum með standandi farþega.

Leifur Magnússon
verkfræðingur



Skrifaðu undir stuðning við flugvöllinn í Vatnsmýri