Grein, birt í Morgunblaðinu 16. maí 2013
Mbl. birti 8. maí grein eftir Jón Kristjánsson, "kaupmann í Reykjavík og áhugamann um flugmál", undir fyrirsögninni "Flug í Reykjavík". Þar velur höfundur að beina til mín samtals 13 spurningum um ýmsa flugtengda þætti, og sem mér væri í reynd almennt ljúft að svara ítarlega. Ég hef hins vegar enga trú á því að ritstjórar blaðsins samþykki að ráðstafa mörgum síðum þess til að svara spurningum, sem flestum er hægt að fá svarað í heimsókn á netið, t.d. á vefsíður þeirra þriggja stofnana innanríkisráðuneytis, sem með þessi mála fara. Hjá þeim eru samtals 876 starfsmenn, sem eru eflaust fúsir að veita slíkar upplýsingar.
Til að byrja með vil ég því vekja athygli Jóns á vefsíðu Flugmálastjórnar Íslands (www.caa.is), sem er ætlað að framfylgja lögum og reglum um flugmál, gefa m.a. út starfsleyfi til flugvalla og flugrekenda, og annast eftirlit með þeim. Isavia ohf. (www.isavia.is) "annast rekstur og uppbyggingu allra flugvalla á Íslandi og stýrir jafnframt flugumferð á íslenska flugstjórnarsvæðinu". Að lokum er Rannsóknarnefnd flugslysa (www.rnf.is), sem "annast rannsókn flugslysa, flugatvika og flugumferðaratvika", og hefur birt umfangsmiklar upplýsingar um þau.
Það þarf hins vegar engin geimvísindi til þess að átta sig á þeim rauða þræði, sem tengir saman allar spurningar Jóns, og sem leiðir til þess að í reynd mætti stytta málið í eina kjarnaspurningu: "Þarf áfram að vera tiltæk norður/suður flugbraut á Reykjavíkurflugvelli?". Sem íbúi á Sóleyjargötu, við hlið skrifstofu forseta Íslands, á hann rétt til að fá svar við slíkri spurningu. Áður en hugað er að því, væri þó við hæfi að líta tæp 14 ár aftur í tímann.
Þann 23. nóv. 1999 birti Mbl. frétt undir fyrirsögninni "Flugvöllurinn verði ein flugbraut", og byggði á viðtali við þáverandi forseta borgarstjórnar Reykjavíkur, sem þremur dögum síðar birti eigin grein í DV undir fyrirsögninni "Flugbraut í stað flugvallar?". Þar kom fram það álit hans, að þar sem að á Akureyri, Egilsstöðum og Ísafirði væru flugvellir með aðeins eina flugbraut, væri ástæðulaust að hafa þær fleiri í Reykjavík. Af þessu tilefni ritaði ég grein undir fyrirsögninni "Hvað ræður ákvörðun um fjölda flugbrauta?", sem Mbl. birti 27. nóv. 1999. Þar voru rakin þau alþjóða ákvæði, sem almennt gilda um hönnun flugvalla, og skýrð sú lykilþýðing, sem svonefnd vindrós hvers staðar hefur varðandi nauðsynlegan fjölda flugbrauta svo nægjanleg nýting náist með hliðsjón af hliðarvindsþoli flugvéla. Vindrós flugvalla í fjörðum eða dölum mótast af því umhverfi, og skýrir hvers vegna Akureyri, Egilsstaðir og Ísafjörður komast af með eina flugbraut.
Með stuðningi þáverandi R-lista í borgarstjórn náði hugmyndin um "flugbraut í stað flugvallar" alla leið inn í aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024, og þar lagt til að frá og með árinu 2016 verði aðeins ein flugbraut á Reykjavíkurflugvelli. Rétt er að minna á, að slíkt skipulag tekur fyrst gildi eftir að umhverfisráðherra hefur samþykkt það og áritað. Með áritun ráðherra, dags. 20. des. 2002, fylgdi eftirfarandi fyrirvari: "Uppbygging í Vatnsmýri og tímasetning hennar er háð flutningi flugstarfsemi af svæðinu". Allir ráðherrar, sem síðan hafa farið með samgöngumál, hafa lýst eindregnum stuðningi sínum við áframhaldandi rekstur Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýri, og sama gildir um samgönguáætlanir, sem Alþingi hefur samþykkt. Ákvæðið um lokun norður/suður flugbrautarinnar er því markleysa.
Flugstarfsemi í Vatnsmýrinni hófst haustið 1919 með starfsemi Flugfélags Íslands (nr.1), og frumkvöðla þess minnst með virðingu, m.a. afa Jóns, sem var stjórnarformaður félagsins. Með bréfi atvinnu- og samgöngumálaráðuneytis til bæjarstjórnar Reykjavíkur, dags. 11. okt. 1937, var lagt til að í Vatnsmýri verði byggður flugvöllur samkvæmt uppdrætti Gústafs E. Pálssonar verkfræðings. Það var þó fyrst 5. mars 1940 sem skipulagsnefnd Reykjavíkur samþykkti að mæla með erindinu, og þá eftir umfjöllun sjö annarra kosta. Var tillagan síðan samþykkt á fundi bæjarráðs 9. mars 1940, tveimur mánuðum fyrir hernám Íslands 10. maí 1940.
Reykjavíkurflugvöllur með aðeins eina flugbraut yrði með öllu óbrúklegur fyrir reglubundið áætlunarflug, þannig að lokun norður/suður flugbrautar þýddi sjálfkrafa að það legðist af. Þann 19. apríl s.l. undirrituðu borgarstjóri og innanríkisráðherra "Samkomulag um endurbætur á aðstöðu fyrir farþega og þjónustuaðila á Reykjavíkurflugvelli". Einn þáttur þess er fyrhuguð bygging nýrrar flugstöðvar fyrir allt áætlunarflugið á svæði Flugfélags Íslands, og fyrirhugað að hún verði tilbúin árið 2015. Undir þeim lið er eftirfarandi sérstaklega áréttað: "Að gerð verði viðskiptaáætlun fyrir nýja flugstöð sem miðar að sjálfbærni hennar". Í því felst m.a. að fjárfesting í slíku mannvirki myndi fá eðlilegan afskriftartíma.
Um allan heim er kunnugt um íbúa, sem velja sér búsetu í næsta nágrenni flugvallar, og krefjast síðan að honum verði lokað. Hér í Reykjavík, eins og annars staðar, verða minni hagsmunir að víkja fyrir meiri.
Leifur Magnússon
verkfræðingur