Grein, birt í Morgunblaðinu 19. ágúst 2013.
Í byrjun næsta mánaðar verða liðin 94 ár frá fyrsta flugtaki flugvélar á Íslandi. Um var að ræða flugvél Flugfélags Íslands (nr.1), sem tók sig á loft af túni í Vatnsmýrinni í Reykjavík 3. september 1919. Næstu tvo áratugina var áherslan lögð á rekstur sjóflugvéla, enda engir flugvellir til á Íslandi. Með bréfi atvinnu- og samgönguráðuneytis til bæjarstjórnar Reykjavíkur 11. október 1937 var lagt til að flugvelli í Reykjavík verði ætlaður staður í Vatnsmýri samkvæmt uppdrætti Gústafs S. Pálssonar verkfræðings. Skipulagsnefnd Reykjavíkur taldi hins vegar rétt að fresta afgreiðslu málsins og láta fyrst gera ítarlega úttekt á sjö kostum í staðsetningu flugvallar í borginni. Að þeirri úttekt lokinni sendi hún borgarstjóra bréf, dags. 5. mars 1940, þar sem mælt var með gerð flugvallar í Vatnsmýri. Á fundi bæjarstjórnar 8. mars 1940 var þessi tillaga samþykkt.
Tveimur mánuðum síðar var Ísland hernumið af breska setuliðinu, sem fljótlega fór að huga að gerð flugvalla hér á landi. Fyrst við Kaldaðarnes í Flóa, og var sá flugvöllur opnaður til bráðabirgða 1. september 1940, og litlu síðar á Melgerðismelum í Eyjafirði. Í október voru hafnar framkvæmdir við gerð Reykjavíkurflugvallar á þeim stað, sem bæjarstjórn Reykjavíkur hafði áður samþykkt, og var flugvöllurinn formlega tekinn í notkun 4. júní 1941. Með bréfi, dags. 12. október 1944, lofuðu bresk stjórnvöld að afhenda íslenskum stjórnvöldum Reykjavíkurflugvöll endurgjaldslaust að stríðinu loknu, og fór sú afhending formlega fram 4. júlí 1946.
Alla tíð síðan hefur Reykjavíkurflugvöllur gegnt lykilflugverki í íslenskum samgöngum. Hann var miðstöð bæði innanlands- og millilandaflugs allt til ársins 1967, þegar bæði Loftleiðir og Flugfélag Íslands höfðu flutt millilandaflug sitt til Keflavíkur vegna rekstrar stærri flugvéla. Þótt þorri millilandaflugs fari nú um Keflavíkurflugvöll, hefur Reykjavíkurflugvöllur enn afgerandi þýðingu sem varaflugvöllur og stuðlar þannig að auknu öryggi þess og hagkvæmni. Hann gegnir jafnframt afar veigamiklu hlutverki sem miðstöð kennslu- og æfingaflugs á Íslandi, og í dag hefur hann aukna þýðingu fyrir sjúkraflug til miðlægra sjúkrastofnana þjóðarinnar, sem ákveðið hefur verið að byggja upp til framtíðar í höfuðborginni.
Borgarstjórn Reykjavíkur hefur nú, stuttu fyrir prófkjör og níu mánuðum fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar, samþykkt að auglýsa tillögu sína að nýju aðalskipulagi borgarinnar árin 2010-2030, sem eigi að fela í sér eftirfarandi fjórar afgerandi tímasettar aðgerðir gegn Reykjavíkurflugvelli: NA-SV braut verði lögð af 2013, æfinga-, kennslu- og einkaflug lagt af 2015, N-S brautin aflögð árið 2016, og flugvallarstarfsemin verði lögð af með öllu 2024. Flugmálastjórn Íslands, Isavia ohf. og flugrekendur hafa á undanförnum árum ítrekað upplýst borgarstjórn að lokun N-S flugbrautar myndi sjálfkrafa hafa þau áhrif að áætlunarflug um flugvöllinn legðist strax af. Þar sem borgarstjórn gerir nú ráð fyrir að æfinga-, kennslu- og einkaflug verði bannað strax árið 2015, er spurning hvaða flugstarfsemi borgarstjórn geri eiginlega ráð fyrir á Reykjavíkurflugvelli með eina flugbraut sjö ára tímabilið 2017-2024.
Yfirlýst andúð þessarar borgarstjórnar er ekki takmörkuð við flugsamgöngur, því svipuð er afstaða hennar gagnvart almennri notkun einkabíla. Í upphafi greinar, sem forseti borgarstjórnar birti í Fréttablaðinu 2. ágúst s.l., staðfesti hann megininntak stefnu sinnar þannig: "Í nýju aðalskipulagi Reykjavíkur er lagt upp úr betri strætó og góðri borg fyrir gangandi og hjólandi". Þetta eru eflaust göfug markmið að mati borgarfulltrúans, en ég leyfi mér að efast um að kjósendur vilji stöðva áætlaða uppbyggingu vegakerfis borgarinnar, og enn síður að leggja niður flugsamgöngur til og frá höfuðborginni, m.a. sjúkraflug fyrir alla landsmenn. Skipulagsstofnun, sem er umhverfisráðherra til ráðuneytis, þegar hann staðfestir tillögu að aðalskipulagi sveitarfélags með áritun sinni, sendi 16. júlí Reykjavíkurborg ítarlega umsögn sína um þáverandi drög að tillögu að nýju aðalskipulagi. Þar er niðurstaða stofnunarinnar um Vatnsmýrina eftirfarandi: "Í staðfestu Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2021 eru fyrirvarar um landnotkun í Vatnsmýri, sbr. kafla 3.2.1 greinargerð I. Að mati Skipulagsstofnunar þarf að setja sambærilega fyrirvara í fyrirliggjandi aðalskipulagstillögu um að uppbygging og breytt landnotkun í Vatnsmýri sé háð samkomulagi við samgönguyfirvöld og flutningi flugstarfsemi af svæðinu."
Í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar, sem kynnt var 22. maí, segir: "Reykjavíkurflugvöllur er grundvallarþáttur í samgöngum landsins. Til þess að hann geti áfram gegnt því mikilvæga þjónustuhlutverki sem hann hefur gegnt gagnvart landinu öllu þarf að tryggja framtíðarstaðsetningu hans í nálægð við stjórnsýslu og aðra þjónustu." Þetta er í fyrsta sinn sem staða og hlutverk Reykjavíkurflugvallar hlýtur sérstaka umfjöllun í sáttmála eða stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar, og undirstrikar því þá þungu áherslu sem hin nýja ríksstjórn leggur á málefnið.
Leifur Magnússon
verkfræðingur