Lokun lítillar flugbrautar

Grein, birt í Morgunblaðinu 21. mars 2013.

Á vefsíðunni ruv.is var 14. þ.m. óvænt fyrst birt frétt undir fyrirsögninni "Reykjavík kaupir land í Skerjafirði", þar sem upplýst var um undirritun formanns borgarráðs og fjármála- og efnahagsráðherra tveimur vikum fyrr á "marksamningi" um sölu ríkisins á 11,2 hektara svæði á suðurhluta Reykjavíkurflugvallar. Talið var við hæfi að nota flugstöð Flugfélags Íslands fyrir þennan gjörning, sem felur í sér skerðingu á notkun flugvallarins, en væntanlega hefði betur farið að hafa uppákomuna á flokksskrifstofu Samfylkingar.

Í frétt Reykjavíkurborgar um málið segir m.a.: "Vinna við skipulagið hefst fljótlega þótt ljóst sé að uppbygging fari ekki af stað fyrr en innanríkisráðuneytið hafi formlega tilkynnt um lokun flugbrautarinnar. Unnið er að samkomulagi við innanríkisráðuneytið og standa vonir til að frá því verði gengið innan tíðar. Vert er að rifja upp að gert hefur verið ráð fyrir lokun litlu flugbrautarinnar með sameiginlegri viljayfirlýsingu ráðuneytisins og Reykjavíkurborgar frá árinu 1999."

Lokun þessarar flugbrautar var á sínum tíma hugsað sem verulegt framlag ríkisins til endanlegra sátta við Reykjavíkurborg um framtíð Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýri, byggingu flugstöðvar, og fleiri samtengda þætti. Lokun flugbrautarinnar var frá upphafi sérstaklega skilyrt því að tilsvarandi flugbraut á Keflavíkurflugvelli verði opnuð á ný, og þannig tryggt ásættanlegt öryggi flugs til og frá suðvesturhluta landsins. Umræddri flugbraut á Keflavíkurflugvelli hafði á sínum tíma verið lokað af varnarliðinu í fyrirskipuðu sparnaðarátaki.

Upphaflegan texta um þetta mál er að finna á drögum að deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar frá 2. mars 1999, en þar sagði: "Stefnt er að því að flugbraut 07-25 verði lokað 5-7 árum eftir að búið er að endurbyggja hinar tvær flugbrautirnar, sem eru merktar 20-02 og 32-14, enda hafi þá fundist önnur leið til að veita það öryggi sem þessi flugbraut tryggir nú".

Síðasta setningin var á sínum nokkurs konar dulmál hlutaðeigandi embættismanna, og valið með hliðsjón af því að á þeim árum heyrði Reykjavíkurflugvöllur stjórnskipulega undir Flugmálastjórn Íslands og samgönguráðuneyti, en Keflavíkurflugvöllur undir Flugvallarstjórn Keflavíkurflugvallar og utanríkisráðuneyti. Í dag heyra hins vegar báðir flugvellirnir undir Isavia ohf. og innanríkisráðuneytið.

Á fundi með öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna 14. des. 2006 staðfesti þáverandi samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson, að lagt verði til að 250 millj.kr. framlag verði í næstu samgönguáætlun til að geta opnað aftur umrædda flugbraut á Keflavíkurflugvelli. Þessu var síðan fylgt eftir með skriflegri viljayfirlýsingu ráðherrans og stjórnarformanns Flugstoða ohf., dags. 9. febrúar 2007, en þar sagði í 3. gr.: "Jafnframt lýsir samgönguráðherra því yfir að í tillögu að samgönguáætlun 2007-2010 er gerð tillaga um að NA/SV-flugbrautin á Keflavíkurflugvelli verði tekin á ný í notkun á árinu 2009. Samhliða mun Flugstoðum ohf. verða falið að loka og afmá NA/SV-flugbrautina á Reykjavíkurflugvelli."

Stuttu síðar, eða í apríl 2007, kom út skýrsla samráðsnefndar samgönguráðuneytis og Reykjavíkurborgar undir heitinu "Reykjavíkurflugvöllur - úttekt á framtíðarstaðsetningu". Þar segir á bls. 18: "Braut 06/24 er eingöngu notuð þegar vindur er mjög sterkur að suðvestan og er brautin aðeins notuð í um 1% tilvika yfir árið. Samkvæmt samkomulagi borgarstjóra og samgönguráðherra frá 11. febrúar 2005 á að loka brautinni og er hér reiknað með að það verði gert á árinu 2007. Er þá miðað við að braut með svipaða stefnu verði opnuð á Keflavíkurflugvelli til að öryggi í innanlandsflugi minnki ekki. Nýting Reykjavíkurflugvallar er um 99%, þ.e. veðurskilyrði hamla flugi í aðeins 1% tilvika. Með lokun brautar 06/24 er reiknað með að nýtingarhlutfallið lækki í 98%."

Sumum finnst eflaust, að fyrst fækkun flugbrauta úr þremur í tvær hafi aðeins í för með sér lokun flugvallar í 1%, skipti slíkt litlu máli. Hafa ber þó í huga að þetta samsvarar um fjórum dögum á ári. Slíkt er í raun ekki ásættanlegt fyrir flugfarþega, þegar í hlut á flugvöllur, sem þjónar sem miðpúnktur alls innanlandsflugs á Íslandi.

Við ríkisstjórnarskiptin 24. maí 2007 tók við samgönguráðherra Samfylkingar, sem hafði áhuga á öðrum áherslum í nýrri samgönguáætlun, og taldi því ekki ástæðu til að gera þar ráð fyrir fjárveitingu til að opna á ný umrædda flugbraut á Keflavíkurflugvelli.

Með fréttum af undirskrift fyrrverandi og núverandi varaformanns Samfylkingar í flugstöðinni á Reykjavíkurflugvelli fylgdi mynd af þeim glöðum í bragði. Það væri vel við hæfi að hlutast verði til um að hengja þessa mynd upp í flugstöðinni til að minnast afreksins, og jafnframt minna flugfarþega á þá afstöðu, sem sumir stjórnmálamenn hafa til nútíma flugsamgangna.

Leifur Magnússon
verkfræðingur



Skrifaðu undir stuðning við flugvöllinn í Vatnsmýri