Ítrekaðar blekkingar um atkvæðagreiðslu um Reykjavíkurflugvöll árið 2001

Grein, birt í Morgunblaðinu 22. júlí 2011

Í Morgunblaðinu 21. þ.m. er birt grein undir fyrirsögninni „Það er búið að kjósa um flugvöllinn, Ögmundur“ eftir Einar Eiríksson kaupmann og stjórnarmann í Samtökum um betri byggð. Þar eru ítrekaðar hefðbundnar blekkingar talsmanna umræddra samtaka, og reyndar ýmissa stjórnmálamanna, um raunverulegan aðdraganda og framkvæmd atkvæðagreiðslu um Reykjavíkurflugvöll, sem fram fór í höfuðborginni árið 2001.

Aðdragandi málsins var sá, að á 4627. fundi borgarráðs Reykjavíkur 18. apríl 2000 samþykkti meiri hluti þess erindisbréf sérfræðihóps „til undirbúnings almennrar atkvæðagreiðslu um framtíðarnýtingu Vatnsmýrar og staðsetningu Reykjavíkurflugvallar“. Það var þó fyrst á 4671. fundi borgarráðs 13. febrúar 2001, - aðeins fimm vikum fyrir atkvæðagreiðsluna, að ráðnu tókst loksins að ákveða hvað skyldi greiða atkvæði um. Borgarbúar fengu tvo svarkosti: „I. Flugvöllur verði í Vatnsmýri eftir árið 2016“, og „II. Flugvöllur fari úr Vatnsmýri eftir árið 2016“. Á þessum sama fundi var einnig samþykkt að atkvæðagreiðslan verði bindandi ef a.m.k. 75% atkvæðisbærra manna í Reykjavík taki þátt í henni, og jafnframt bindandi ef a.m.k. 50% atkvæðisbærra manna greiði atkvæði á sama veg.

Á þessum sama fundi borgarráðs lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokks fram langa bókun um málið, þar sem m.a. var bent á eftirfarandi: „Svokölluð atkvæðagreiðsla, sem er í raun ekkert annað en viðhorfskönnun, var ákveðin skömmu eftir að borgarstjóri skrifaði undir framkvæmdaleyfi vegna endurbyggingar flugvallarins. Atkvæðagreiðslunni virðist aðeins ætlað það eitt að slá ryki í augu borgarbúa og draga athygli frá ábyrgð R-listans í málinu. Fyrirhuguð könnun mun ekki binda hendur þeirra sem stýra borginni árið 2016.“

Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar 17. mars 2001varð síðan sú að á kjörstað mættu aðeins 37,2% atkvæðisbærra Reykvíkinga, eða tæplega helmingur þess sem tilskilið hafði verið af borgarráði fyrir bindandi niðurstöðu. Um 1% voru auð og ógild atkvæði, samtals 14.529 eða 17,9% atkvæðisbærra Reykvíkinga kusu að flugvöllur verði áfram í Vatnsmýri, en samtals 14.913 eða 18,4% kusu að flugvöllurinn fari, - en höfðu þá að sjálfsögðu ekki græna glóru um hvert hann ætti að fara!

Það vekur furðu, að þrátt fyrir margítrekaðar upplýsingar og röksemdir um þjóðhagslegt gildi Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni skuli sumir stjórnmálamenn enn berjast fyrir lokun flugvallarins. Landlæknir, sjúkraflutningaráð og þeir sem sinna daglegu sjúkra- og neyðarflugi hérlendis hafa margsinnis útskýrt þá grundvallarþýðingu sem núverandi flugvöllur hefur í næsta nágrenni við miðlæg hátæknisjúkrahús allra landsmanna. Sameiginleg ákvörðun ríkis og borgarstjórnar um fyrirhugaða stórfellda uppbyggingu á Landspítalasvæðinu undirstrikar rækilega að flugvöllurinn verði að vera þar um ókomna framtíð. Þá hefur oft verið skýrð þýðing núverandi flugvallar sem miðstöð íslensks innanlandsflugs, og þar með ferðaþjónustunnar allrar, svo og þýðingu hans sem mjög verðmæts varaflugvallar fyrir þorra þess millilandaflugs, sem fer um Keflavíkurflugvöll.

Mörgum finnst eðlilegt að talsmenn Samtaka um betri byggð ættu einnig að minnast á aðra og síðari atkvæðagreiðslu, nefnilega borgarstjórnarkosningarnar í maí 2002. Meðal framboða þá voru svonefnd Höfuðborgarsamtök, sem lýstu yfir því megin stefnumáli sínu að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýrinni, og eigi síðar en árið 2010, - enda voru flestir talsmenn framboðsins jafnframt kunnir sem talsmenn Samtaka um betri byggð. Niðurstaða kosninganna varð sú, að þetta háreista framboð hlaut samtals 397 atkvæði, samsvarandi aðeins 0,6% af gildum atkvæðum í höfuðborginni.

Leifur Magnússon
verkfræðingur



Skrifaðu undir stuðning við flugvöllinn í Vatnsmýri