Flugvallarákvörðun" Reykvíkinga?

Grein, birt í Morgunblaðinu 24. september 2005.

Í frétt í Morgunblaðinu 21. sept. s.l. er sagt frá því að borgarstjórn Reykjavíkur hafi daginn áður samþykkt að vísa frá tillögu Ólafs F. Magnússonar borgarfulltrúa F-listans "um að áframhald sjúkra- og öryggisflugs á höfuðborgarsvæðinu yrði tryggt". Jafnframt er sagt að í frávísunartillögu Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur borgarstjóra hafi hún bent á "að afstaða Reykvíkinga til flugvallar í Vatnsmýrinni hafi komið fram í almennum kosningum 2001, þegar meirihluti hefði verið fyrir því að hann flyttist þaðan."

Þetta er nokkuð svipuð ónákvæmni í frásögn af atkvæðagreiðslunni og fram kom í ritstjórnargrein Morgunblaðsins 23. ágúst s.l. en þar sagði orðrétt "að íbúar Reykjavíkur hafa í lýðræðislegri atkvæðagreiðslu ákveðið að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýrinni eftir 2016". Svo virðist að eftir því sem lengra líður frá umræddri atkvæðagreiðslu 2001 fari stjórnmála- og fréttamenn að vitna til hennar á heldur frjálslegan hátt. Því er við hæfi að rifja upp nokkrar staðreyndir málsins.

Atkvæðagreiðslan

Á 4627. fundi borgarráðs Reykjavíkur 18. apríl 2000 samþykkti meiri hluti þess erindisbréf sérfræðihóps "til undirbúnings almennrar atkvæðagreiðslu um framtíðarnýtingu Vatnsmýrar og staðsetningu Reykjavíkurflugvallar". Það var þó ekki fyrr en á 4671. fundi borgarráðs 13. febrúar 2001, aðeins fimm vikum fyrir umrædda atkvæðagreiðslu, að ráðinu tókst að ákveða hvað skyldi í raun og veru kosið um. Ákveðið var að borgarbúar hefðu tvo svarkosti: "I. Flugvöllur verði í Vatnsmýri eftir árið 2016", og "II. Flugvöllurinn fari úr Vatnsmýri eftir árið 2016". Á þessum sama fundi var samþykkt að atkvæðagreiðslan verði bindandi ef a.m.k. 75% atkvæðisbærra manna taki þátt í henni, og jafnframt bindandi ef a.m.k. 50% atkvæðisbærra manna greiði atkvæði á sama veg jafnvel þótt þátttaka í atkvæðagreiðslunni verði undir 75% mörkunum.

Á þessum sama fundi borgarráðs lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks fram langa bókun, þar sem m.a. var bent á eftirfarandi: "Svokölluð atkvæðagreiðsla, sem er í raun ekkert annað en viðhorfskönnun, var ákveðin skömmu eftir að borgarstjóri skrifaði undir framkvæmdaleyfi vegna endurbyggingar flugvallarins. Atkvæðagreiðslunni virðist aðeins ætlað það eitt að slá ryki í augu borgarbúa og draga athyglina frá ábyrgð R-listans í málinu. Fyrirhuguð könnun mun ekki binda hendur þeirra sem stýra borginni árið 2016"

Við framkvæmd atkvæðagreiðslunnar var í fyrsta lagi sá megingalli að engar upplýsingar eða vísbendingar komu þar fram um það hvert flugvöllurinn ætti að fara, ef honum yrði vísað burt. Í öðru lagi beindu ýmsir forsvarsmenn Sjálfstæðisflokksins því ítrekað til stuðningsmanna sinna að sniðganga atkvæðagreiðsluna með öllu.

Niðurstaðan varð síðan sú, að á kjörstað 17. mars 2001 mættu aðeins 37,2% atkvæðisbærra Reykvíkinga, eða samsvarandi tæpum helmingi þess sem tilskilið hafði verið af borgarráði fyrir bindandi atkvæðagreiðslu. Um 1% voru auð og ógild atkvæði, samtals 14.529 eða 17,9% atkvæðisbærra Reykvíkinga kusu að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni, og samtals 14.913 eða 18,4% kusu að flugvöllurinn fari, - en höfðu þá að sjálfsögðu ekki minnstu hugmynd um hvert hann ætti að fara.

Sjúkra- og öryggisflugið

Í upphafi þessarar greinar var vitnað til fréttar um frávísun borgarstjórnar á tillögu eins borgarfulltrúa þess efnis að áfram verði tryggt sjúkra- og öryggisflug til höfuðborgarsvæðisins. Ég vil í þessu sambandi því sérstaklega vitna til yfirlýsingar Sigurðar Guðmundssonar landlæknis, dags. 30. nóv. 2000, undir fyrirsögninni "Öryggissjónarmið og framtíð Reykjavíkurflugvallar". Landlæknir vitnar þar til bréfs formanns sjúkraflutningaráðs, dags. 28. nóv. 2000, og segir síðan:

"Þar lýsir ráðið þeirri skoðun sinni að Reykjavíkurflugvöllur gegni einstöku og afar mikilvægu hlutverki í sjúkraflutningum frá landsbyggðinni til Reykjavíkur og að ekki sé unnt að sjá fyrir aðra og jafngóða lausn í því efni. Vakin er athygli á nauðsyn þess að sérþjálfað starfslið sé nálægt flugvelli þegar rætt er um meðferð og flutning sjúkra og slasaðra. Verði flugvöllur færður muni flutningstími á sjúkrahús lengjast og að sjálfsögðu ber að sporna við því ef kostur er. Auk þess má vekja athygli á að við stórslys, náttúruhamfarir eða aðra vá á landsbyggðinni þarf oft að leita eftir greiningarsveitum, sérhæfðu starfsliði o.s.frv. á staðinn. Í langflestum tilvikum kemur það starfslið frá Reykjavík og fer oft flugleiðina. Nálægð flugvallarins við höfuðborgarsvæðið er því einnig mikilvægt í þessu efni. Landlæknir er sammála áliti sjúkraflutningaráðs og gerir það að sínu."

Sameiginleg ákvörðun Alþingis, ríkisstjórnar og borgarstjórnar Reykjavíkur um stórfellda uppbyggingu Landsspítala-háskólasjúkrahúss fyrir norðan nýflutta Hringbraut, og að þar verði til framtíðar miðlægt hátæknisjúkrahús fyrir allt Ísland, undirstrikar enn á ný það lykilhlutverk sem núverandi Reykjavíkurflugvöllur í Vatnsmýrinni gegnir í öllu sjúkra- og öryggisflugi.

Leifur Magnússon
verkfræðingur



Skrifaðu undir stuðning við flugvöllinn í Vatnsmýri