Grein, birt í Morgunblaðinu 27. ágúst 2012.
Ég þakka Gísla Marteini Baldurssyni borgarfulltrúa kurteislegt svar í Morgunblaðinu 23. ágúst við grein minni um Vatnsmýrarskipulag, og nauðsyn þess að Reykjavíkurflugvöllur geti þar áfram gegnt sínu lykilhlutverki í samgöngu- og heilbrigðismálum þessarar þjóðar. Hann vitnar þar í túlkun Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur þáverandi borgarstjóra R-lista á þeim fyrirvara, sem umhverfisráðherra setti við áritun á tillögu Reykjavíkurborgar að aðalskipulagi 2001-2024. Til að jafnræðis væri gætt, hefði þó einnig mátt hafa með nokkrar tilvitnanir í opinbera afstöðu allra hlutaðeigandi samgönguráðherra, Sturlu Böðvarssonar, Kristjáns L. Möller og Ögmundar Jónassonar, sem allir sem einn hafa ítrekað lýst rökstuddum og eindregnum vilja til að flugvöllurinn verði til frambúðar á sínum stað. Sú afstaða þeirra hefur endurspeglast í þeim samgönguáætlunum, sem Alþingi hefur samþykkt á liðnum árum.
Ég hef á undanförnum áratugum verið þátttakandi í þessari umræðu, og m.a. starfað í sex nefndum á vegum ríkisins þar sem þessi og tengd málefni hafa verið til nánari umfjöllunar. Ég minnist á þetta vegna þess, að við upphaf hugmynda borgarstjórnarfulltrúa R-lista um íbúðabyggð í Vatnsmýri í stað flugvallar, var ætíð talað um nauðsyn þess að byggður verði annar flugvöllur á höfuðborgarsvæðinu, sem tæki við hlutverki núverandi flugvallar í Vatnsmýrinni. Þetta áréttar Gísli Marteinn sjálfur í grein sinni í Fréttablaðinu 19. jan. s.l. undir fyrirsögninni "Hvers vegna byggð í Vatnsmýri?", sem endar á eftirfarandi: "Þetta er ástæðan fyrir því að ég og fleiri viljum að Reykjavíkurflugvelli verði fundinn annar góður staður í eða við Reykjavík, svo allir landsmenn geti notið öflugrar, þéttrar og skemmtilegrar höfuðborgar."
Sú grundvallarbreyting hefur hins vegar orðið í málinu undanfarið ár eða svo er að verði Reykjavíkurflugvelli lokað á næstu árum verður enginn annar flugvöllur tiltækur "í eða við Reykjavík". Það þýðir þá einfaldlega að flytja þyrfti flugstarfsemina, eða réttara sagt afgang hennar, til Keflavíkurflugvallar. Brottfall Reykjavíkurflugvallar sem varaflugvallar fyrir millilandaflugið um Keflavík gerir það jafnframt óhagkvæmara, og gæti leitt til hærri far- og farmgjalda.
Nefnd, sem samgönguráðherra skipaði í apríl 2005, kannaði hugsanleg 13 svæði fyrir nýjan flugvöll, en útilokaða fljótt 11 þeirra. Eftir stóðu til nánari athugunar aðeins tveir kostir. Hólmsheiði og Langasker. Báðir þessir afleitu kostir eru nú úr sögunni. Veðurfarsathuganir á Hólmsheiði hafa staðfest lakari skilyrði en í Vatnsmýrinni, enda meint flugvallarstæði í 135 m hæð yfir sjó og nálægt fjöllum. Þann 6. júlí 2011 birti Morgunblaðið frétt undir fyrirsögninni: "Hætt við nýjan flugvöll á Hólmsheiði - Reykjavíkurflugvöllur ekki færður". Þar er eftirfarandi haft eftir Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra um Hólmsheiði: "Þetta er galin hugmynd, sem var á teikniborðinu á meðan peningarnir fengu að ráða. Ég er mjög afdráttarlaus í þeirri skoðun minni að við eigum að halda flugvellinum í Reykjavík."
Fyrri hugmyndir um nýjan flugvöll á Lönguskerjum í Skerjafirði eru líka komnar í bólakaf, bókstaflega. Í fyrsta lagi eru hlutaðeigandi sveitarfélög að vinna að friðun Skerjafjarðar, sem útilokar byggingu nýs flugvallar þar. En það sem væntanlega vegur þyngra er að nú er staðfest að vaxandi hnattræn hlýnun muni hafa í för með sér mun meiri hækkun sjávar á þessu svæði en áður var búist við, sem myndi gera uppfyllingar í Skerjafirði margfalt dýrari en áður var áætlað.
Gísli Marteinn segist sakna í grein minni "heildarsýnar á skipulag Reykjavíkur", og hvar eigi þeir 25 þúsund Reykvíkingar að búa, sem muni bætast við á næstu 20 árum. Í grein minni benti ég reyndar á að enginn skortur sé talinn á byggingarlóðum af ýmsu tagi, þegar litið er á höfuðborgarsvæðið sem eina heild, og að Reykjavíkurborg teldi sig vera í harðri samkeppni við nágrannasveitarfélögin um nýja íbúa. Að mínu mati fæst heildarsýn í skipulagsmálum höfuðborgarsvæðisins fyrst og fremst í aukinni samvinnu allra þeirra sveitarfélaga, sem þar eru, í stað þess að hvert þeirra sé að bauka í sínu horni, og forðist að horfa mikið út fyrir "sitt yfirráðasvæði".
Stjórnmálamenn sækja umboð sitt til þjóðarinnar, yfirleitt á fjögurra ára fresti. Í vaxandi mæli er hins vegar rætt um að þjóðin þurfi að geta tekið afstöðu til ýmissa þýðingarmikilla mála í beinni þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er þjóðin öll sem á Reykjavíkurflugvöll, og þjóðin öll á drjúgan hluta þess lands, sem hann stendur á í Vatnsmýrinni. Flugvöllurinn er ætlaður öllum þeim til afnota, sem ferðast þurfa til og frá höfuðborginni, ekki síst þeim sem þurfa á læknisþjónustu að halda. Ég tek undir fjölda fyrri ábendinga þess efnis að tímabært sé að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar.
Leifur Magnússon
verkfræðingur