Miðborgarflugvellir

Grein, birt í Morgunblaðinu 27. nóvember 2012.

Í áratuga rimmu um þýðingu og tilvist Reykjavíkurflugvallar hafa andstæðingar hans ítrekað haldið því fram að staðsetning svo nálægt miðborg sé algjört einsdæmi. Því fer hins vegar víðs fjarri, og í flestum ríkjum eru ótal dæmi um hliðstæðar staðsetningar flugvalla, einkum þar sem um er að ræða fleiri en einn, sem þjóna umræddri borg. Er þá oft ákveðin hlutverkaskipting þannig að hver flugvöllur sinni tilteknum þætti flugflutninga, t.d. millilandaflugi eða innanlandsflugi, áætlunarflugi eða leiguflugi.

Í desember 2002 skipaði þáverandi umhverfisráðherra þriggja manna nefnd til "að fara yfir svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins 2001-2024, og gera tillögur um landnotkun í Vatnsmýri", og var ég tilnefndur í nefndina sem fulltrúi samgönguráðherra. Meðal skjala, sem ég lagði fram í starfi nefndarinnar, var yfirlit yfir 85 flugvelli, sem voru 9 km eða styttra frá hlutaðeigandi borgarmiðju. Af þessum flugvöllum voru 16, sem þjónuðu höfuðborgum.

Samkvæmt tölfræði á vefsíðu Isavia ohf. fóru árið 2011 samtals um 2,5 milljón flugfarþega um þá tvo flugvelli, sem þjóna höfuðborg Íslands, þar af 2,1 milljón um Keflavíkurflugvöll og rúmlega 0,4 milljón um Reykjavíkurflugvöll. Fróðlegt er því til samanburðar að líta á eftirfarandi tilsvarandi flutningatölur ársins 2011 fyrir þrjár aðrar höfuðborgir, sem allar tengjast Íslandi með reglubundnu áætlunarflugi Icelandair. Íslenskir flugfarþegar þekkja vel til aðalflugvalla þessara höfuðborga, en væntanlega eitthvað minna til þeirra flugvalla, sem þar eru í miðju þeirra og umfangi flugflutninga um þá.

Þrír stórir flugvellir þjóna flugi til og frá Washington D.C., höfuðborgar Bandaríkjanna, og þeirra stærstur er Washington Dulles International flugvöllurinn, sem er um 42 km fyrir vestan borgina. Um hann fóru á síðasta ári 23,2 milljón farþega. Annar flugvöllur, sem einnig sinnir umtalsverðu millilandaflugi til og frá höfuðborginni, er Baltimore-Washington International Thurgood Marshall, um 51 km norðaustur af borginni. Þriðji flugvöllurinn er hins vegar staðsettur á bökkum Potomac árinnar við sjálfa miðborgina, og er að sjálfsögðu Ronald Reagan Washington National, en árið 2011 fóru um hann 18,1 milljón flugfarþega.

Fimm flugvellir þjóna flugi til og frá London, höfuðborgar Bretlands. Þeirra langstærstur er London Heathrow, um 32 km fyrir vestan borgina, en um hann fóru 69,4 milljón flugfarþega árið 2011. Gatwick flugvöllurinn er um 48 km fyrir sunnan borgina, London Stansted um 56 km fyrir norðaustan hana, og London Luton um 48 km fyrir norðan borgina. Í miðri borginni er hins vegar staðsettur London City flugvöllurinn, en árið 2011 fóru samtals 3,0 milljón flugfarþega um hann.

Fjórir flugvellir eru nú skráðir til að þjóna flugi til og frá Stokkhólmi, höfuðborgar Svíþjóðar. Þar er efst á blaði Stockholm-Arlanda, um 42 km fyrir norðan borgina, en um hann fóru 19,1 milljón flugfarþega árið 2011. Einnig koma til Stockholm-Skavsta, um 100 km fyrir suðvestan borgina, og Stockholm-Västerås, um 100 km fyrir vestan hana. Við sjálfa miðborgina er hins vegar enn í fullum rekstri Stockholm-Bromma, en um hann fóru á síðasta ári 2,2 milljón flugfarþega, sem er um 5% fleiri en fóru á sama ári um Keflavíkurflugvöll.

Mörg önnur dæmi mætti hér nefna til sögu, t.d. Boston. Aðalflugvöllur þeirrar borgar, Logan International, er á 965 hektara svæði á ströndinni rétt við borgarmiðjuna, og um hann fóru 28,9 milljón flugfarþega árið 2011. New York er þjónað af sex stórum flugvöllum, og einn þeirra er LaGuardia inni í miðri borginni. Um hann fóru 24,0 milljón flugfarþega á liðnu ári. Rio de Janeiro hefur þrjá flugvelli, og er einn þeirra, Santo Dumos, staðsettur beint við borgarmiðjuna, en um hann fóru 8,5 milljón flugfarþega á árinu 2011.

Fimm af þeim erlendu flugvöllum, sem fjallað er um hér að framan, voru byggðir á árunum 1923-1936. Sá sjötti, London City Airport, var hins vegar fyrst byggður 1987 til að mæta brýnni þörf á hagkvæmu og skilvirku áætlunarflugi til og frá miðstöð viðskipta og fjármála í miðri höfuðborg Bretlands. Athyglisvert er að árið 2011 fóru um 20% fleiri flugfarþegar um þennan miðborgarflugvöll en fóru það sama ár um bæði Keflavíkurflugvöll og Reykjavíkurflugvöll samanlagt.

Leifur Magnússon
verkfræðingur



Skrifaðu undir stuðning við flugvöllinn í Vatnsmýri